LANGÞRÁÐUR DRAUMUR

SAMEINUÐ Í BRENNANDI ÁHUGA Á MATARGERÐ

Það eru hjónin Sigurður Ágústsson matreiðslumeistari og Birta Jónsdóttir framreiðslumeistari sem standa að baki veitingastaðnum Krisp á Selfossi. Fljótlega eftir að Siggi og Birta kynntust kom í ljós að helsta áhugamál þeirra beggja væri matargerð og allt henni tengt. Það leið því ekki á löngu áður en þau voru farin að láta sig dreyma um að opna sitt eigið veitingahús. Í október árið 2018 varð sá draumur að veruleika.

FJÖLBREYTT REYNSLA

HVER VEGUR AÐ HEIMAN ER VEGURINN HEIM

Það var árið 2010 sem leiðir þeirra Sigga og Birtu lágu fyrst saman en þá var Siggi að stíga sín fyrstu skref í atvinnueldhúsi en Birta hafði unnið sem þjónn um þó nokkuð skeið. Ári seinna bauðst Sigga nemasamningur á Hótel Rangá og þau hófu því bæði störf þar. Eftir nokkurn tíma á Hótel Rangá ákváðu þau að stíga skrefið til fulls og héldu því í höfðuborgina til að öðlast meiri og fjölbreyttari reynslu. Þar störfuðu þau bæði á Satt Restaurant og Kolabrautinni í Hörpu. Það leið þó ekki á löngu áður en fór að örla á söknuði til fjölskyldunnar og heimahaganna. Eftir nokkra umhugsun ákváðu þau því að snúa aftur á Selfoss og festa þar rætur. Eftir komuna á Selfoss tók við einstaklega dýrmætur tími í Tryggvaskála en samhliða því gekk Siggi til liðs við kokkalandsliðið og Birta lauk BA námi í ensku. Síðasti viðkomustaður var svo veitingastaðurinn Silfra á Ion hótelinu við Nesjavelli þar sem Birta starfaði sem veitingastjóri og Siggi sem yfirkokkur.

ENGINN MAÐUR ER EYLAND

ÞAKKLÆTI ER OKKUR EFST Í HUGA

Okkur langar að koma á framfæri einskæru þakklæti til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg við að láta þennan draum okkar verða að veruleika. Þar ber fyrst að nefna Jón Arnarr, pabba Birtu, sem hefur lagt nótt við nýtan dag við að aðstoða okkur í framkvæmdum. Mæður okkar beggja hafa einnig verið boðnar og búnar að baka, mála, annast börnin og ganga í þau óteljandi verkefni sem falla til við rekstur veitingahúss. Einnig viljum við þakka Óla stjúppabba fyrir málningarvinnuna og ótal ferðir á haugana. Síðast en ekki síst eru það börnin okkar fjögur sem eiga þakkir skilið fyrir þolinmæðina og skilninginn. Án ykkar allra hefði þessi draumur aldrei orðið að veruleika.